Ræktunarfélagið Hákon

um stóðhestinn Hákon frá Ragnheiðarstöðum IS2007182575

26.02.2011 11:48

Aðalfundur 12. mars 2011Ákveðið hefur verið að halda aðalfund Ræktunarfélagsins Hákons laugardaginn 12. mars nk. Upplýsingar um fundarstað og fundartíma verða gefnar út á næstu dögum. Stefnt er að því að sýna Hákon hluthöfum þennan dag.

09.02.2011 10:51

Hákon flotturHákon er fljótur í form og burð. Töltið er honum náttúrulegt, rífandi gangur eins og einhver sagði. Norsk stúlka, Tine Johansen, náði þessari mynd af Hákoni þegar þeir Erlingur voru á reiðtúr í síðustu viku.

09.02.2011 00:01

Sóllilja frá Hamarsey sigraði á folaldasýninguHákonsdóttirin Sóllilja frá Hamarsey sigraði flokk merfolalda á folaldasýningu Andvara síðastliðna helgi. Fleiri myndir á www.hamarsey.is

Hákon er þegar farinn að stimpla sig inn sem ræktunarhestur.

08.02.2011 23:15

Ófeigur Hákonssonur folald sýningarinnar í SöðulsholtiÞann 29. janúar síðastliðinn var haldin folaldasýning í Söðulsholti á Snæfellsnesi. Skemmst er frá því að segja að Hákonssonurinn Ófeigur frá Söðulsholti var kosinn folald sýningarinnar af áhorfendum. Hann var í 2. sæti í flokki hestfolalda að mati dómaranna.

Nánari úrslit og fleiri myndir á www.sodulsholt.is

22.12.2010 20:13

Hákon í Hestum og hestamönnumHákon er efstur á blaði í upptalningu á vonarstjörnum næsta sumars. Jens Einarsson, ritstjóri hestablaðsins Hesta og hestamanna, gerði úttekt á helstu vonarstjörnum hrossaræktar á Íslandi, þ.e. folum á fjórða.

Annars er að að frétta af Hákoni að hann er kominn inn til Erlings og Viðju í Langholti og þjálfun hans fer í gang núna um jólin. Hann er í góðu standi og hefur þroskast vel í haust.

20.10.2010 23:28

Myndbönd af HákoniMyndbönd af Hákoni frá því síðasta laugardag eru komin inn. Þau er fjögur talsins, þrjú sýna þegar unnið er með hann í hendi og á baki inni í reiðhöll en eitt frá útreiðum.

Smellið hér til að fara sjá myndböndin:
Hákon myndbönd

19.10.2010 16:49

Frumtamningu lokið - Bráðefnilegur HákonÞað var rigningarsuddi og rok þegar stjórnarliðar í Ræktunarfélaginu Hákoni tóku frumtamninguna út um liðna helgi. Hins vegar var enginn bilbugur á tamningafólkinu í Langholti, Erlingi og Viðju. Liðnar voru rúmar 4 vikur frá því Hákon var tekinn á hús en aðeins 3 vikur frá því tamning fór almennilega í gang. Þetta var tíunda skiptið sem farið var á bak Hákoni og í þriðja skiptið sem farið var í útreiðatúr.

Tamningin hefur gengið hratt og vel og Hákon sérstaklega lærdómsfús og auðtaminn. Erlingur hrósaði Hákoni fyrst og fremst fyrir þennan þátt. Auk þess hafði nú síðustu daga komið í ljós hversu opinn hann er fyrir gangi, tekur töltspretti á góðum hraða í flottum burði. Einnig var Hákoni hrósað fyrir að koma fljótt til í beisli, vera næmur og svara taumtaki vel.

Erlingur endaði á því að segja að útlit væri fyrir að Hákon hefði erft það besta frá báðum foreldrum, geðslag föður síns og ganglag móður sinnar: ,,Fullkomin blanda".

Hákoni var sleppt út í stóðhestahólfið á Ragnheiðarstöðum í dag þar sem hann hefur það gott með félögum sínum, á góðu grasi og með heyrúllu til að narta í. Stefnt er að því að taka hann aftur inn til þjálfunar um miðjan desember næstkomandi, en að sjálfsögðu fyrr ef ástæða þykir til, fer eftir veðri og ástandi folans.

Stefnt er að því að hafa sýningu á Hákoni í febrúar á næsta ári fyrir alla hluthafa. Að venju verður haldinn aðalfundur í mars.

Teknar voru myndir og myndbönd af Hákoni síðustu helgi. Myndirnar eru í myndaalbúminu en myndböndin koma síðar í vikunni.

09.10.2010 15:09

Frumtamning gengur velErlingur og Viðja eru ánægð með fyrstu vikurnar í tamningu Hákons. Upp úr stendur geðprýði, næmni og höfðingsskapur. Einn stjórnarmanna átti leið í Langholt og smellti af mynd af Hákoni og Erlingi. ,,Hann er mjög ljúfur og vingjarnlegur, jákvæður og léttur í lund. Ekki ósvipaður pabba sínum þegar við byrjuðum á honum", sagði Erlingur.

,,Ég kom fyrst við taum í gær, strax kom hann í fulla eftirgjöf og var mjög samstarfsfús".

Fylgst verður með tamningu Hákons næstu vikurnar og er það í höndum stjórnarmanna. Birtar verða fréttir og myndir af framvindunni hér á heimasíðunni.

07.10.2010 11:39

Reikningar sendir út
Ræktunarfélagið Hákon ehf. hefur nú sent út reikninga til allra hluthafa sem áttu rétt á því að nota hestinn í sumar upp á kr. 10.000+vsk. Er þetta svokölluð aðgangsbeiðni undir hestinn sem allir greiða, óháð því hvort þeir selji tollinn sinn eða noti hann sjálfir. Þeir sem notuðu hestinn í fyrra fengu svipaða reikninga í fyrra.

Einnig voru sendir út reikningar fyrir girðingargjaldi (kr. 15.000+vsk) sem fer beint til Helgu og Valmundar í Flagbjarnarholti og sónarskoðunum (kr. 3.000+vsk).

Við í stjórninni hvetjum fólk til þess að greiða reikningana sem fyrst. Eins og flestir félagsmenn vita er Hákon kominn í frumtamningu hjá Ella og Viðju í Langholti og gengur vel.
Fleiri fréttir af því koma núna um helgina.

22.09.2010 00:48

Hákon kominn í frumtamninguÞá hefur Hákon lokið skyldustörfum sínum í hryssum í sumar og er útkoman ágæt. 31 hryssa hefur verið staðfest með fyli en enn á eftir að sónarskoða 11 hryssur. Stjórn félagsins ákvað að Hákon skyldi frumtaminn hjá Erlingi og Viðju í Langholti. Það var kannski nærtækast þar sem þau bæði frumtömdu, þjálfuðu og sýndu báða foreldrana þau Hátíð frá Úlfsstöðum og Álf frá Selfossi.

Stjórnin mun fylgjast með frumtamningunni og munum við flytja fréttir af henni hér á síðunni.

12.09.2010 18:26

Flott folöld - HákonsbörninHákonsbörnin sem fæddust í vor halda áfram að slá í gegn í stóðum félagsmanna. Þau eru undantekningalítið hágeng, framfalleg og fótahá. Hér fyrir ofan er Sóllilja frá Hamarsey og neðan Ófeigur frá Söðulsholti, myndirnar eru teknar af heimasíðum félagsmanna www.hamarsey.is og www.sodulsholt.is.

Við hvetjum fleiri félagsmenn til að senda inn myndir af Hákonsbörnunum síðan í sumar á netfangið
hamarsey@hamarsey.is

04.09.2010 20:41

Síðasta sónarskoðun 13. septemberJæja, þá tekur sumri að halla og Hákon að ljúka skyldustörfum sínum í Flagbjarnarholti. Þann 13. september nk. munum við sónarskoða allar 18 hryssurnar sem eru hjá Hákoni. Við biðjum þá sem eiga hryssur í hólfinu að vera í startholunum að sækja þær.

18.08.2010 21:46

25 hryssur fengnarAlls eru 25 hryssur fengnar það sem af er sumri og enn aðrar 5 líklegar sem eru í hólfinu hjá honum en ekki hægt að staðfesta. Næst verður sónarskoðað um miðjan september og hann þá tekinn úr hryssum. Hákon er feitur og pattaralegur og hefur það greinilega gott í Flagbjarnarholti.

Nýjar myndir frá síðustu sónarskoðun, 10. ágúst sl. eru komnar inn í Myndaalbúmið.